Umhverfi og samfélag
Bláa Lónið heldur áfram að leggja ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð
Samfélag án sóunar
Bláa Lónið sjálft er frábært dæmi um hvernig hægt er að búa til verðmæti úr náttúrulegri auðlind. Að sama skapi er fyrirtækið mjög meðvitað um þá staðreynd að náttúran er ekki óþrjótandi auðlind. Því stuðlum við að sjálfbærni á sem flestum sviðum í rekstri og leggjum okkur fram við að starfa í samvinnu og sátt við samfélagið og umhverfið.
Umhverfisvitund hefur stóraukist innan fyrirtækisins á síðustu misserum og stöðugt er unnið að því að minnka umhverfisáhrif af rekstri Bláa Lónsins. Unnið er markvisst að því að draga úr orku- og vatnsnotkun á hvern gest og auka hlutfall endurunnins úrgangs með því að draga úr myndun hans og auka flokkun.
Bláa Lónið er hluti af Auðlindagarðinum á Reykjanesi, en þar er átt við þá þyrpingu fyrirtækja sem nýta tvo eða fleiri auðlindastrauma frá jarðvarmaveri HS Orku hf í Svartsengi. Bláa Lónið er eina fyrirtæki Auðlindagarðsins sem nýtir alla auðlindastrauma jarðvarmaversins.
Að láta gott af sér leiða
Bláa Lónið hefur ætíð stutt vel við íþrótta- og æskulýðsmál í heimabyggð, sem og ýmis menningar- og heilbrigðismál með fjölbreyttum hætti.
Stærsta einstaka samfélagsverkefni Bláa Lónsins er að veita psoriasis-meðferð Bláa Lónsins til allra sjúkratryggðra á Íslandi, þeim að kostnaðarlausu.
Á hverju ári styrkir Bláa Lónið aukinheldur fjölmörg félagasamtök, verkefni og einstaklinga með ýmsum hætti. Á meðal þeirra sem Bláa Lónið studdi árið 2017 voru:
- Sólheimar
- Krabbameinsfélag Íslands
- Hönnunarmiðstöð
- Hönnunarsafn Íslands
- Stofnun Vígdísar Finnbogadóttur
- Íþróttasamband fatlaðra
- Landsamband hestamanna
- Forskot – afrekssjóður íslenskra kylfinga
Ábyrg ferðaþjónusta
Bláa Lónið er eitt þeirra 250 fyrirtækja sem undirrituðu yfirlýsingu um ábyrga ferðaþjónustu í upphafi árs. Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni þar sem fyrirtækin setja sér markmið í eftirfarandi atriðum:
- Ganga vel um og virða náttúruna
- Tryggja öryggi gesta okkar og koma fram við þá af háttvísi
- Virða réttindi starfsfólks
- Hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið
Bláfáninn er alþjóðleg viðurkenning sem veitt er þeim fyrirtækjum sem stuðla að umhverfisvernd. Hann var dreginn að húni í fimmtánda sinn sumarið 2017.
Efling ferðaþjónustunnar
Bláa Lónið er virkur þátttakandi í hinum ýmsu samvinnu- og umbótaverkefnum sem stuðla að uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu, meðal annars á sviði sölu- og kynningarmála, umhverfismála og nýsköpunar. Með þátttöku sinni í þessum verkefnum leggur félagið sitt á vogarskálarnar við að auka verðmætasköpun og efla samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu.