Rannsóknir og þróun

Rannsóknar- og þróunarstarf er sem fyrr einn af hornsteinum Bláa Lónsins

Virk efni Bláa Lónsins – kísill, sölt og þörungar – eru framleidd í hráefnavinnslu með grænum og sjálfbærum framleiðsluaðferðum.

Vísindamenn í Þróunarsetri Bláa Lónsins finna sífellt nýjar leiðir við að nýta jarðvarmann til framleiðslu á nýjum húðvörum eða nýjum upplifunum fyrir gesti Bláa lónsins.

Áherslan í vöruþróun ársins 2017 var á Retreat Spa, enda fara gestir þess í upplifunarferðalag þar sem virk efni jarðsjávarins eru í aðalhlutverki. Alls voru 19 nýjar vörur settar á markað, ýmist í smásölu eða fyrir gesti Retreat Spa.

Fjárfest í nýju þörungakerfi

Fjárfest var í nýju og stærra þörungakerfi. Nýja kerfið bætir afurðina, eykur framleiðslugetu til muna, dregur úr orkunotkun og gerir Bláa Lónið á allan hátt betur í stakk búið til að mæta aukinni framtíðarþörf.

Gæðastýringarkerfi fyrir hráefnavinnslu fékk ISO 9001 vottun í lok árs eftir mikla undirbúningsvinnu. Bláa Lónið fékk sitt þriðja einkaleyfi samþykkt, en það lýtur að einkaleyfi á notkun kísils í snyrtivörur og lyfi til að draga úr öldrun húðarinnar og styrkja starfsemi efsta varnarlags hennar.

Farsælt samstarf við háskólasamfélagið

Bláa Lónið hefur átt afar farsælt samstarf við háskólasamfélagið á sviði rannsóknar og þróunar á undanförnum árum.  Árið 2017 bar einna hæst að Jenna Huld Eysteinsdóttir varði doktorsritgerð sína í læknisfræði, en hún var unnin í nánu samstarfi við Bláa Lónið. Niðurstöður sýndu að 73% sjúklinga sem fengu meðferð við psoriasis í Bláa Lóninu náðu fullum, eða nánast fullum bata, eftir 6 vikna meðferð, samanborið við 16% sjúklinga sem fengu hefðbundna ljósameðferð.

Start typing and press Enter to search