Helgi Magnússon
„Á miklu uppgangsskeiði í ferðaþjónustu hefur Bláa Lónið fjárfest í vextinum í stað þess að fleyta rjómann af honum.“
Ágætu hluthafar.
Á árinu 2017 fagnaði Bláa Lónið 25 ára afmæli sínu og óhætt er að segja að afmælisárið hafi verið gjöfult og árangursríkt á öllum sviðum í rekstri félagsins.
Á seinni hluta ársins voru gerðar nokkrar skipulagsbreytingar á rekstri Bláa Lónsins og skipuritið einfaldað. Eftir breytingarnar eru tekjueiningar félagsins fjórar: Baðstaðir, Veitingasvið, Hótel og Verslanir, og er starfsemi þeirra er svo studd af fimm stoðsviðum.
Enn eitt metið var slegið í fjölda gesta á árinu 2017 þar sem um 1,3 milljónir manna heimsóttu Bláa Lónið, sem er tæplega 18% aukning frá árinu á undan. Á sama tíma var smiðshöggið rekið á stærsta verkefni í sögu félagsins; nýtt hótel og upplifunarsvæði, The Retreat at Blue Lagoon Iceland, sem opnað var á páskadag á þessu ári.
Það er mikið afrek að standa í stórframkvæmdum og taka samhliða á móti svo miklum fjölda gesta. Það er ekki síður mikið afrek að halda ánægju gesta í hæstu hæðum þrátt fyrir viðamiklar framkvæmdir á upplifunarsvæðinu. Þar hafa starfsmenn Bláa Lónsins verið í lykilhlutverki.
„Það er mikið afrek að standa í stórframkvæmdum og taka samhliða á móti svo miklum fjölda gesta. Það er ekki síður mikið afrek að halda ánægju gesta í hæstu hæðum.“
Rekstur veitingasviðs Bláa Lónsins var sá veltu- og umfangsmesti frá upphafi en eins og áður var megináhersla lögð á framúrskarandi gæði hráefnis og þjónustu. Undirbúningsvinna vegna opnunar The Retreat einkenndi rekstrarár sviðsins.
Hótelrekstur Bláa Lónsins á Silica Hotel gekk afar vel á árinu og var bókunarstaðan afar góð allt árið um kring og umsagnir gesta frábærar.
Aukinn kraftur var lagður í verslunarrekstur Bláa Lónsins, m.a. með auknu markaðsstarfi í Bandaríkjunum og auknu og fjölbreyttara vöruframboði í verslunum. Ljóst er að mikil tækifæri felast í enn frekari þróun og sölu húðvara Bláa Lónsins um heim allan.
Á árinu 2017 hélt Bláa Lónið áfram að fjárfesta í stafrænni þróun og lagði grunninn að nýrri bókunarvél og vefsvæði sem tekið var í notkun á þessu ári. Með aukinni fjárfestingu í stafrænni tækni hyggst félagið taka enn frekari skref í vöruþróun, þjónustuframboði og upplifun gesta, rétt eins og gert var með innleiðingu aðgangsstýringar Bláa Lónsins á sínum tíma, en hún hefur vakið athygli bæði hér á landi og erlendis.
Tekjur Bláa Lónsins jukust milli ára og námu um 102,2 milljónum evra á árinu eða um 12,3 milljörðum króna á meðalgengi ársins 2017. Í evrum talið var um rúmlegan 32% vöxt að ræða. Hagnaður eftir skatta nam um 31 milljón evra sem var 32% aukning frá árinu áður. Efnahagur félagsins er áfram afar traustur en eiginfjárhlutfall þess var 56% sem hlýtur að teljast gott í ljósi fjárfestinga og uppbyggingar félagsins á undanförnum árum.
„Efnahagur félagsins er áfram afar traustur en eiginfjárhlutfall þess var 56% sem hlýtur að teljast gott í ljósi fjárfestinga og uppbyggingar félagsins á undanförnum árum.“
Bláa Lónið telst í dag í hópi stærstu vinnustaða landsins. Um áramótin störfuðu 627 manns hjá félaginu samanborið við 560 árið á undan. Á undanförnum tveimur árum hefur mikið verið fjárfest í mannauð félagsins enda er vel þjálfað og öflugt starfsfólk lykillinn að góðum árangri Bláa Lónsins.
Bláa Lónið er í dag eftirsóttur vinnustaður sem endurspeglast m.a. í því að á síðasta ári sóttu um 1.200 manns um 50 sumarstörf hjá félaginu og félagið tók á móti samtals um 5.400 umsóknum yfir árið. Vinnustaðagreiningar sýna að starfsfólk Bláa Lónsins er afar ánægt í starfi og á vinnustaðnum ríkir einstakur starfsandi.
Á miklu uppgangs- og vaxtarskeiði í ferðaþjónustu á Íslandi hefur Bláa Lónið fjárfest í vextinum í stað þess að fleyta rjómann af honum. Forstjóri félagsins, Grímur Sæmundsen, hefur ávallt haft augun á framtíðinni í þróun og uppbyggingu félagsins þar sem metnaðarfullar fjárfestingar í upplifun gesta hafa verið grundvöllur virðissköpunar og arðsemi Bláa Lónsins. Nýjasta verkefnið, The Retreat at Blue Lagoon Iceland, er ljóslifandi dæmi um þessa skýru stefnumörkun.
The Retreat er án nokkurs vafa eitt metnaðarfyllsta verkefni sem ráðist hefur verið í á íslenskum ferðaþjónustumarkaði. Upplifunin er einstök, umhverfið magnað og gæðin og þjónustan á við það besta sem gerist í heiminum. Það hefur þegar sýnt sig að The Retreat er orðinn mikilvægur þáttur í því að fá hingað til lands gesti sem eru tilbúnir að greiða fyrir hágæðaþjónustu.
„The Retreat er án nokkurs vafa eitt metnaðarfyllsta verkefni sem ráðist hefur verið í á íslenskum ferðaþjónustumarkaði. Upplifunin er einstök, umhverfið magnað og gæðin og þjónustan á við það besta sem gerist í heiminum.“
Ferðaþjónustan er í dag burðarstoð í íslensku atvinnulífi. Á síðasta ári sóttu um 2,2 milljónir ferðamanna Ísland heim og hefur þessi mikla aukning skilað sér í nýsköpun og aukinni verðmætasköpun fyrir íslenskt samfélag.
Stjórnvöld eiga því að hlúa að greininni í stað þess að þvælast fyrir henni með misgáfulegum hugmyndum um skattheimtu og álögur. Þau eiga að leggja grunn að aukinni samkeppnishæfni hennar með því að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði og skapa skilvirkt regluverk.
Ferðaþjónustan er grein einstaklingsframtaksins þar sem fjöldi einstaklinga hefur byggt upp öflug fyrirtæki um land allt og skapað ný og spennandi störf. Bláa Lónið er einmitt gott dæmi um slíkt einstaklingsframtak. Það vill stundum gleymast að fyrir 25 árum var Bláa Lónið lítið sprotafyrirtæki sem hefur alla tíð síðan vaxið og dafnað við mjög misjafnar aðstæður. En með skýrri stefnumörkun og metnaði í fjárfestingum hefur félagið, undir stjórn Gríms Sæmundsen, náð mögnuðum árangri.
Í dag er Bláa Lónið ekki eingöngu eitt öflugasta ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi heldur hefur það einnig byggt upp eitt allra sterkasta vörumerki landsins, Blue Lagoon Iceland.
Ísland á í samkeppni við önnur lönd um ferðamennina. Það er mikilvægt að við nýtum meðbyrinn, fjárfestum í vextinum og gerum íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum kleift að skapa ánægjulegar minningar fyrir alla þá ferðamenn sem hingað koma. Rétt eins og gestgjafar og starfsmenn Bláa Lónsins gera á degi hverjum, allan ársins hring.
Ég vil fyrir hönd stjórnar félagsins færa starfsmönnum og stjórnendum Bláa Lónsins þakkir fyrir frábæra frammistöðu á liðnu starfsári. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þeim mikla metnaði sem starfsfólkið hefur sýnt og þeim árangri sem það hefur náð. Mikil ánægja gesta ber þess glöggt vitni.