Hótel

Með tilkomu Retreat fær hótelstarfsemi mun meira vægi innan félagsins

Nokkrar breytingar voru í hótelrekstri Bláa Lónsins á árinu 2017. Með tilkomu The Retreat var ákveðið að sameina hótelreksturinn undir eitt svið.

Á Silica Hotel var áhersla lögð á að bæta aðstöðu og upplifun gesta með það að markmiði að fara fram úr væntingum þeirra. Rekstur Silica Hotel gekk afar vel og bókunarhlutfall var afar gott. Þá hefur hótelið hlotið góðar umsagnir á samfélagsmiðlum eins og Trip Advisor.

Silica Bistro var lokað í nóvember og er allur veitingarekstur Silica Hotel nú undir veitingasviði Bláa Lónsins. Í boði er glæsilegur morgunmatur og kaldir réttir og samlokur úr eldhúsi Bláa Lónsins. Hótelgestir eru nú keyrðir yfir á Lava Restaurant eða veitingastaði á The Retreat í hádegismat og kvöldmat óski þeir eftir því.

Undirbúningur, ráðningar og þjálfun vegna opnunar The Retreat einkenndu starfsemi hótelsviðsins seinni hluta ársins en ráðningar gengu almennt mjög vel.

The Retreat tekur á sig mynd

Hápunktur rekstrarársins 2018 er vafalaust þegar nýja hótel- og upplifunarsvæðið, The Retreat, verður tekið í notkun.

Tímalaus fágun í hönnun og byggingu

Við byggingu The Retreat var það haft að leiðarljósi að hafa bygginguna í sem bestu flæði við náttúruna í kring. Markmiðið var eining hins náttúrulega og hins manngerða.

Basalt arkitektar, í samvinnu við Design Group Italia, sáu um hönnun Retreat og unnu þau með erlendum fyrirtækum sem eru fremst á sínu sviði, t.a.m. í ljósahönnun, húsgagnasmíði og hljóðvistarhönnun.

Allur innblástur var sóttur í liti, áferðir og form sem má finna í hinu einstaka umhverfi Bláa Lónsins. Í allri innanhúshönnun var lagt upp með að vinna með svokallaða tímalausa fágun, sem lýsir sér í einföldum formum og hlutlausum litum. Öll efni og frágangur eru eftir ítrustu gæðakröfum og næmt auga var haft fyrir öllum smáatriðum.

Íslenskri hönnun er gert hátt undir höfði og þekktir íslenskir stólar prýða setustofu og veitingastað Retreat. Listakonan Ragna Róbertsdóttir vann veggverk úr hrauni fyrir hótelið og veitingastaðinn, sem og skúlptúra úr efnum sem hún sótti beint í umhverfi lónsins.

Þá veitti Bláa Lónið Hönnunarsafni Íslands styrk til að kaupa stórt safn leirmuna sem framleiddir voru af leirvinnustofunni Glit á sjöunda og áttunda áratugnum. Gripirnir eru auðþekkjanlegir á því hvernig hrauni er raðað utan á leirinn undir glerungnum, aðferð sem á þessum tíma var einstök á heimsvísu. Þetta safn prýðir nú anddyri hótelsins.

Útkoman er glæsileg vin í hraunbreiðunni sem á sér engan líka í heiminum.

Start typing and press Enter to search