Grímur Sæmundsen
„Kannanir sýna að Bláa Lónið er fyllilega samkeppnishæft við sum þekktustu upplifunar og afþreyingarfyrirtæki heims.“
Ágætu hluthafar.
Árið 2017 var ár uppbyggingar, athafna og breytinga hjá Bláa Lóninu. Í upphafi ársins voru gerðar mikilvægar umbætur á baðsvæði Bláa Lónsins, unnið var að stækkun skrifstofuhúsnæðis og mötuneytis starfsmanna og lokahnykkurinn var settur á byggingaframkvæmdir The Retreat at Blue Lagoon Iceland.
Samhliða þessum stóru verkefnum hélt kjarnastarfsemi Bláa Lónsins áfram að vaxa. Starfsmenn tóku á móti 1,3 milljónum gesta og unnið var að þróun og umbótum í starfi félagsins á öllum sviðum.
Bláa Lónið er upplifunarfyrirtæki. Allar okkar fjárfestingar í gegnum árin hafa miðað að því að byggja upp starfsemi í kringum einstaka upplifun gesta okkar.
Við mælum ánægju gesta okkar reglulega og samkvæmt á meðmælavísitölunni (NPS) eru gestir okkar afar ánægðir með upplifunina en kannanir sýna að Bláa Lónið er fyllilega samkeppnishæft við sum þekktustu upplifunar- og afþreyingarfyrirtæki heims.
Það er einmitt lykilatriði. Bláa Lónið sem vörumerki er í algjörri sérstöðu og verðmæti og styrkleiki þess í alþjóðlegu samhengi er alltaf að koma betur í ljós. Við höfum á undanförnum árum þurft að gæta hagsmuna okkar og tryggja hugverkaréttindi þar sem fjölmargir aðilar um allan heim vilja, beint eða óbeint, tengja sig við Bláa Lónið.
Fjölmiðlar og áhrifavaldar hafa fjölmennt til okkar en á fimmta hundrað slíkra aðila sóttu Bláa Lónið heim á síðasta ári. Að auki hefur markaðs- og kynningarstarf Bláa Lónsins erlendis verið mjög öflugt þar sem samfélagsmiðlar hafa verið í lykilhlutverki.
„Bláa Lónið sem vörumerki er í algjörri sérstöðu og verðmæti og styrkleiki þess í alþjóðlegu samhengi er alltaf að koma betur í ljós.“
Bláa Lónið hefur á undanförnum árum lagt áherslu á að styðja við fjölmörg mannúðar- og samfélagsverkefni á starfssvæði félagsins. Að auki leggur Bláa Lónið fjölmörgum verkefnum lið um land allt. Við tökum virkan þátt í eflingu ferðaþjónustunnar á Íslandi, m.a. í gegnum Samtök Ferðaþjónustunnar, Stjórnstöð ferðamála og Íslandsstofu. Við höfum mikilvægu hlutverki að gegna sem leiðandi fyrirtæki í ferðaþjónustu hér á landi.
Við höfum í mjög auknum mæli lagt áherslu á umhverfismál og á síðasta ári hófst vinna við stefnumótun og markmiðasetningu í umhverfismálum sem miðar að því að stórauka umhverfisvitund starfsmanna og stjórnenda fyrirtækisins og draga úr umhverfisáhrifum af rekstri Bláa Lónsins. Síðar á þessu ári verður kynnt ný og metnaðarfull umhverfis- og samfélagsstefna Bláa Lónsins.
Öflugt og gott starfsfólk er lykilauðlind Bláa Lónsins. Við höfum borið gæfu til þess á undanförnum árum að ráða til okkur hæfileikaríkt fólk á öllum sviðum sem hefur lagt sig fram við að þjóna gestum okkar með frábærum árangri. Lykillinn að þeim árangri er öflug þjálfun og metnaðarfullt fræðslu- og mannauðsstarf sem byggt hefur verið upp á undanförnum tveimur árum. Því uppbyggingarstarfi verður haldið áfram á næstu árum.
Síðla árs 2017 var stórt skarð höggvið í raðir Bláa Lóns fjölskyldunnar þegar Magnea Guðmundsdóttir, samstarfskona okkar til 20 ára, laut í lægra haldi fyrir illvígum sjúkdómi. Magnea var um árabil einn nánasti samstarfs- og stuðningsmaður minn við uppbyggingu Bláa lónsins, en það gaf oft á bátinn á þeim tuttugu árum sem liðin eru.
Allir treystu Magneu til að koma að viðkvæmustu málum í rekstri fyrirtækisins vegna mannkosta hennar. Hún var alltaf óumdeild. Við minnumst Magneu með hugljúfri minningu um einstaka konu.
Stjórnendur Bláa Lónsins hafa að undanförnu lagt grunninn að því að byggja upp tæknilega inniviði og hrint af stað stefnumótunarstarfi á sviði stafrænnar þróunar. Framundan eru stórauknar fjárfestingar á þessu sviði. Bláa Lónið ruddi brautina á sínum tíma með aðgangsstýringu sem fjölmargir aðilar horfa nú til sem fyrirmyndar.
Á næstunni munum við taka næstu skref á þeirri vegferð og nýta stafræna tækni til þess að gera upplifun gesta enn ánægjulegri og auka hagræði og hagkvæmni í rekstri.
„Nú reynir á að fyrirtæki sýni ábyrgð og aðlagi sig að breyttum aðstæðum. Mikilsvert er að hvergi verði slakað á í gæðum upplifunarinnar né öryggi gesta.“
Íslensk ferðaþjónusta stendur á tímamótum. Eins og við var að búast hefur dregið úr fjölgun ferðamanna til Íslands, enda var flestum orðið ljóst að tugprósenta árlegur vöxtur í fjölgun ferðamanna var engan veginn sjálfbær hvað varðar hagsmuni greinarinnar og samfélagsins.
Nú reynir á að fyrirtækin sýni ábyrgð og aðlagi sig að breyttum aðstæðum. Mikilsvert er að hvergi verði slakað á í gæðum upplifunarinnar né öryggi gesta. Þar þurfa allir hagsmunaaðilar að axla ábyrgð bæði þjónustuaðilar og stjórnvöld.
Við hjá Bláa Lóninu erum staðráðin í að halda áfram að fjárfesta í einstakri upplifun okkar gesta og leggja þannig okkar af mörkum í þessu verkefni.
Í þeim efnum er best að láta verkin tala.